Eins og auglýst var í fréttabréfinu sem við sendum frá okkur nú í apríl, þá var haldið námskeið sem kallaðist „Markmiðasetning fyrir kjarasamninga“. Það var ánægjulegt að sjá hversu áhugasamt fólk er en um 20 manns mættu á námskeiðið. Vissulega er það takmarkað sem hægt er að fara í á þremur til fjórum tímum en ég tel að námskeiðið muni nýtast okkur ágætlega í því að skipuleggja vinnu okkar við kröfugerð. Trúnaðarráð hefur haldið sinn fyrsta fund. Við fengum BK til að fara með okkur í gegnum samninginn, stór hluti hópsins hefur ekki komið að gerð kjarasamninga áður og því fannst okkur kjörið að fá mann eins og Bjarna til að skýra ýmis atriði samningsins. Í fréttabréfinu áðurnefnda var óskað eftir fólki í vinnuhópa til að vinna að nokkrum þeim málefnum sem stjórnin telur brýnt að unnið sé að. Það væru stórlegar ýkjur að segja að barist væri um sæti í þessum vinnuhópum!; enn er pláss fyrir áhugasama að slást í hópana. Nokkrir félagsmenn hafa komið að máli við stjórn vegna sumarorlofsmála í flugstjórn, þessi mál hafa verið rædd lítillega við yfirflugumferðarstjóra og hans menn. Stjórnin hefur nú það verkefni að skoða þessi mál til hlítar, spurningin er í raun hvort kjarasamningur okkar leyfir að við séum „skikkuð“ í frí eða ekki. Spurningin er ennfremur sú hvort það sé einhver sérstök þörf á að skikka okkur í frí, þessi mál eru sem sagt í athugun.