Helgina 14.-16. maí var vinnuhelgi í Aðalbóli og Gullhvammi. Eldsnemma á föstudagsmorgninum fórum við Lára norður í Aðalból með viðkomu á Akureyri, þar sem keyptar voru tuskur, hreinsiefni og aðrar nauðsynjar. Í Aðalbóli hittum við Tóta og í sameiningu þrifum við bústaðinn hátt og lágt og hentum rusli, þ.á.m. fullt af matvælum sem runnið höfðu út á síðustu öld. Á meðan á þessu stóð var eiginmaðurinn sendur í Gullhvamm með kerru fulla af sandi í sandkassann og möl í tröppurnar, ásamt tuskum, hreinsiefnum og tilheyrandi. Snemma á laugardeginum komu svo þangað Hlín og hennar maður og seinnipartinn mættum við Lára ásamt Helgu. Í Gullhvammi var borið á frönsku gluggana og þeir þvegnir að innan og utan, skápar, skúffur og hillur þrifnar, tekið til í geymslunni, gert við loftnetið uppi á þaki og fleira skemmtilegt. Í þessari tiltekt fylltist heil kerra af rusli, svo ekki var vanþörf á. Vegna votviðris var hvorki hægt að bera á bústaðinn né pallinn en sjálfboðaliðar í það verkefni óskast hér með. Um kvöldið var svo grillað læri og horft á Eurovision. Við hefðum gjarnan viljað gera meira en komumst ekki yfir það vegna tímaskorts og manneklu, því fleiri sem mæta á vinnuhelgi, því meira er hægt að gera. Að lokum hvetjum við félagsmenn til að ganga vel um bústaðina í sumar og óskum ykkur góðra stunda í frábærum bústöðum.
F.h. orlofsnefndar, Halldóra Klara