Yngsta flugkynslóðin í fyrirrúmi
Sérstök áhersla verður lögð á að hafa ofan af fyrir ungu kynslóðinni. Á svæðinu verður hoppukastali, karokí, haldið bingó og keppt um bestu bréfskutluna og verðlaun fyrir bestu flugmyndlistina. Þá verður karmellu- og pokakast úr flugvélum og ýmislegt annað nýstárlegt.
Heimilislegur matarilmur í Fljótshlíðinni
Það verður algjör óþarfi að koma með mat í Múlakot. Flugmálafélagið leggur sérstaka áherslu á að leysa þann mikilvæga þátt með heimilislegum anda að leiðarljósi. Sérlöguð Flugfiskisúpa a´la Múlakot verður “stand-by” allan daginn, heimabakaðar Múlakotsmúffur, Vestmannaeyjaflatkökur með hangikjöti, mexíkanskt snakk með heiti sósu, pylsur soðnar í pilsner, heimalagaðar samlokur, örbyglgjupopp, úrval af sælgæti, malandi Gevalia-kaffivél, kaldir drykkir úr kæliskápum og ís ef veður leyfir svo það helsta sé nú upptalið (leyndó: bjór seldur undir borðum). Á morgnanna verður svo “mini”-morgunverðarhlaðborð og ekki má gelyma grillveislunni góðu á laugardagkvöldið. Viðvörun: Þetta verður á boðstólum á meðan birgir endast og hið formkveðna gildir: Fyrstir koma – fyrstir fá.
Haus og hali á flugsýningarsvæðinu
Útbúin hafa verið lífleg skilti sem rekin verða ofan í grassvörðinn til að tákna “heimavöll” viðkomandi flugáhugamanna. Á skiltunum mun standa: Sandskeið, Hamranes, Fisheimar, Gamli turninn, Fluggarðar, Himnaríki (fallhlífaliðið), Melgerðismelar, Tungubakkar, Pilsaþytur (Flugklúbburinn Þytur) og Geirfuglasker. Erum líka að reyna að útbúa gott hlið (gatekeeper) þar sem ekið er inn á svæðið. Kl. 11 fyrir hádegi á laugardeginum verður formleg setningarathöfn til að gefa þessu öllu menningarlegra yfirbragð og svo verður menningarkvöldstuð við varðeld og Fjótshlíðarfjöldasöng þegar dimma tekur. Þannig verður vonandi góð stemming og myndrænn haus og hali á hjá okkur.
Upphaf og endir + stuðningur við Flugmálafélagið
Svæðið verður opnað síðdegis föstudaginn 30. júlí. Formlegri dagskrá lýkur á sunnudagskvöldið en vitaskuld geta flugfjölskyldur dvalið fram á mánudaginn. Það kostar 500 kr. inn á svæðið og það gildir fyrir alla helgina. Tjaldstæðð kostar 500 á sólarhring. Yngri en 14 ára fá frítt á svæðið í samræmi við væna fjölskyldustefnu Flugmálafélagsins sem á eftir að birtast ykkur í enn fjölbreyttara formi. Aðgangseyrinn hjálpar Flugmálafélaginu (og þar með okkur öllum) að halda þessu elskulega flugstússi öllu áfram, öllum til ánægju og hagsbóta.
Verið stillt á Múlakot á tölvunni næstu daga
Á næstu dögum sendum við fleiri góðar og ánægjulegar fréttir um dagskránna á Múlakoti. Hvetjum allt flugáhugafólk að mæta með fjölskylduna og vini og kunninga, styðja þannig Flugmálafélgið og fara ósvikin heim til baka og halla okkur alsæl á koddann. Eitt af kjörorðum Flugmálafélagains er að gera meira fyrir ykkur en auglýst er.
Amen á eftir efninu. Biðjum Guð um gott veður.
Háloftakveðjur,
f.h. Flugmálafélags Íslands
Gunnar Þorsteinsson
Upplýsingasímar Múlakots eru 663 5800 + 867 5808.