Nú líður að því að stýrihópur samgönguráðherra um framtíðarskipan flugmála skili niðurstöðum, en skv. upplýsingum stjórnar má búast við að hópurinn ljúki störfum 15. des. nk.  Eins og menn muna fór FÍF fram á að fá félagsmann skipaðan í stýrihópinn en þeirri beiðni var aldrei svarað af ráðherra.  Það er athyglivert að skoða hver skipan flugmála er í löndunum í kringum okkur. Integra Consult a/s hefur nýverið unnið skýrslu fyrir FMS um skipan flugmála í 24 löndum, eftirfarandi upplýsingar eru teknar úr þeirri skýrslu. Ef við skoðum Norðurlöndin þá er staðan sú að í Danmörku og Noregi hefur átt sér stað aðskilnaður þjónustu og eftirlits, í Svíþjóð mun aðskilnaður þjónustu og eftirlits verða að veruleika í janúar 2005 og í Finnlandi er hið sama fyrirhugað í janúar 2006. Naviair í Danmörku og Avinor í Noregi, flugumferðarþjónustuaðilarnar, eru hvoru tveggja fyrirtæki í ríkiseigu, Avinor er hlutafélag en ekki Naviair.  Ekki er laust við að breytingin sem átt hefur sér stað í Danmörku og Noregi við að flytja flugumferðarþjónustuna úr CAA, stofnun á borð við FMS, yfir í fyrirtæki hefur haft töluverðar afleiðingar fyrir starfsfólk, þá sérstaklega í Noregi.  Aukin krafa um hagræði hefur haft í för með sér ýmsar breytingar á rekstri flugumferðarþjónustunnar, breytingar sem oft virðast illa ígrundaðar og keyrðar í gegn í fljótfærni.  Fréttir af fyrirhuguðum breytingum í Noregi bárust fyrir nokkru þegar flugumferðarstjórar í Röyken lögðu niður störf, vegna öryggisástæðna, þegar þeim höfðu verið færðar þær fréttir að stjórn Avinor hefði lagt til að hluti af starfsemi Röyken yrði flutt til Stavanger, og hluti til Gardemoen. Áætlað er að þeim breytingum verði lokið árið 2008.  Af öryggisástæðum segi ég, að sögn fengu þessar fréttir töluvert á menn og lái þeim hver sem vill að treysta sér illa til að veita ábyrgðarmikla þjónustu eins og flugumferðarstjórn við slíkar kringumstæður.  Norðurlöndin hafa öll valið að láta „fyrirtækjavæðingu” flugumferðarþjónustunnar duga, nokkur ríki hafa gengið enn lengra og einkavætt flugumferðarþjónustu. Einkavæðing hefur m.a. átt sér stað í Kanada, Bretlandi og Ástralíu.  Óhætt er að segja að að önnur lönd ættu að líta á einkavæðingu þessara landa sem víti til varnaðar.  Nú fyrir stuttu var Flugöryggissvið FMS flutt upp í Skógarhlíð.  Hvort sá flutningur sé vísbending um þær breytingar sem menn vilja sjá hér skal ósagt látið en ljóst er að við þurfum að vera á tánum og fylgjast vel með þessum málum.