Nú höfum við loks fengið að heyra niðurstöðu stýrihóps samgönguráðherra um framtíðarskipan flugmála.  Á starfsmannafundi FMS sl. föstudag kynnti Hilmar B. Baldursson niðurstöðuna:  stýrihópurinn gerir að tillögu sinni að flugumferðar- og flugvallaþjónustan verði hlutafélagavædd og stjórnsýsla og eftirlit verði rekið í sér B-hluta stofnun.  Þessi niðurstaða kemur svo sem ekki á óvart,  og þó, hlerað hefur verið að flugmálastjóri hafi ekki verið hlynntur þessari leið. Vinna stýrihópsins var að frumkvæði samgönguráðherra og tók til flugmála er heyra undir hans ráðuneyti.  Keflavíkurflugvöllur heyrir undir utanríkisráðuneytið og tók því hópurinn ekki afstöðu til, eða fjallaði a.m.k. ekki um framtíð Keflavíkurflugvallar.  Spyrja má hvernig hægt sé að skoða framtíð flugmála á Íslandi án þess að taka Keflavíkurflugvöll með í þá skoðun.  Á skipuriti sem sýnt var til skýringar á tillögum skiptingar FMS mátti sjá að Flugkerfi og Flugfjarskipti áttu einhvern veginn (sýnt með brotnum línum) að fylgja flugumferðar- og flugvallaþjónustunni.  Hér er um að ræða fyrirtæki annars vegar í eigu FMS (Flugfjarskipti) og hins vegar í eigu FMS og Háskólans (Flugkerfi).  Hægt er að sjá fyrir sér að Flugfjarskipti ættu vel heima í rekstri með flugumferðar- og flugvallaþjónustu en verra er að segja til um Flugkerfi.  Þegar sú ímynd sem margir starfsmenn FMS hafa af Flugkerfum er höfð í huga, þ.e.a.s. fyrirtæki sem “mjólkar” flugumferðarþjónustuhluta FMS, þá er erfitt að sjá fyrir sér hvernig rekstur Flugkerfa fer saman með rekstri flugumferðar- og flugvallaþjónustunni.  En allt um það, þetta verður framtíðin ef samgönguráðherra velur að gera tillögur stýrihópsins að sínum.  Greint var frá því á starfsmannafundinum að skýrsla hópsins yrði birt í heild sinni fljótlega.  Ef marka má góða mætingu félagsmanna á starfsmannafundinn þá er víst að fólk hefur mikinn áhuga á hvernig rekstri flugmála verður háttað í framtíðinni enda um okkar eigin framtíð í starfi að ræða. Við bíðum spennt eftir að lesa skýrslu  stýrihópsins og hvetjum til umræðu um málið á “spjallinu”.