Eins og kunnugt er vinnur FÍF að því með lögmanni félagsins að stefna Flugmálastjórn Íslands fyrir Félagsdóm vegna brota á samningum um vaktakerfi og vinnutíma. Vonast er til að stefna verði tilbúin seinni part næstu viku.

 

Að gefnu tilefni hafði ég samband við samgönguráðuneyti og starfsmannskrifstofu fjármálaráðuneytis og óskaði upplýsinga um hvort þessir aðilar hafi krafist þess að Flugmálastjórn Íslands og Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli breyttu vaktkerfum flugumferðarstjóra í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og flugturni Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvalla. Svör þeirra eru eftirfarandi:

 

“Starfsmannaskrifstofna fjármálaráðuneytisins hefur ekki afskipti af rekstri einstakra stofnana né heldur vaktafyrirkoulagi hjá þeim. Við höfum ekkert með það að gera. Það eru stofnanir sem setja niður fyrirkomulag vakta í takt við þá kjarasamninga sem eru í gildi fyrir starfsmenn stofnana.”

Ásta Lára Leósdóttir, sérfræðingur, starfsmannaskrifstofa, fjármálaráðuneyti

 

“Sæll Loftur, ég hef leitað mér uppl. um það [sem] þú baðst mig um að athuga. Ég get fullvissað þig um að engin fyrirmæli hafa borist héðan af því tagi sem þú nefnir.”

Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri, samgönguráðuneyti

 

Í 3. mgr. gr. 2.1.1 í kjarasamningi FÍF segir: “Flugmálastjórn er heimilt að flytja vinnuskyldu milli vikna eða árstíða með samþykki viðkomandi starfsmanns.” Lögmaður félagsins túlkar þessa grein sem einstaklingsbundið val um hvort flytja megi vinnuskyldu starfsmanns milli vikna eða árstíða. Þeir sem ekki sætta sig við flutning vinnuskyldu, t.d. vegna einhliða breytinga á vaktkerfum, geta tjáð flugmálastjóra það skriflega og óskað eftir vöktum þar sem vinnutími fer ekki umfram 38 klst. á viku.

 

Kveðja,

Formaður