Yfirstjórn flugumferðarsviðs Flugmálastjórnar Íslands hefur nú tekið upp þá nýjung í stjórnunarháttum sem felst í því að beita ákveðinn starfshóp refsiaðgerðum. Aðalvarðstjórar í flugstjórnarmiðstöðinni hafa fengið þau fyrirmæli að halda flugumferðarstjórum á vakt í flugstjórnarmiðstöðinni í „stofufangelsi“. Aðalvarðstjórar fengu þessi fyrirmæli frá yfirmönnum sínum á fundi með þeim síðastliðinn miðvikudag og að tilgangurinn væri að láta „hart mæta hörðu“??
Vegna þessa hefur Félag íslenskra flugumferðarstjóra skrifað flugmálastjóra eftirfarandi bréf.





Borgartún 28, 105 Reykjavík

16. mars 2006

 

 

Hr. flugmálastjóri
Þorgeir Pálsson

Flugmálastjórn Íslands

 

 

Efni: Refsiaðgerðir.

 

Félagi íslenskra flugumferðarstjóra er kunnugt um að aðalvarðstjórum í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík hafa verið gefin fyrirmæli af yfirmönnum flugumferðarsviðs um að beita flugumferðarstjóra sem vinna vaktir í flugstjórnarmiðstöðinni refsiaðgerðum. Þessar aðgerðir felast m.a. í því að neita flugumferðarstjórum á vakt um leyfi til að yfirgefa flugstjórnarmiðstöðina í vinnuhléum til að sinna persónulegum erindum ef aðstæður leyfa. Sömuleiðis er flugumferðarstjórum á vakt bannað að nýta leikfimiaðstöðu í kjallara flugstjórnarmiðstöðvar í hléum sínum.

 

Félagið vísar til starfsmannastefnu Flugmálastjórnar en þar segir m.a.:

 

Flugmálastjórn leggur áherslu á að í stofnuninni ríki góður starfsandi og að starfsmenn sýni hverjir öðrum fyllstu tillitssemi í öllum samskiptum. Hegðun sem ógnar, truflar, ögrar eða veldur öðrum óþægindum er litin mjög alvarlegum augum. Þannig líðst ekki hegðun sem telst fela í sér einelti á einhvern hátt.

 

Félag íslenskra flugumferðarstjóra bendir á að ofangreind vinnubrögð yfirmanna flugumferðarsviðs eru ekki aðeins óeðlilegir stjórnunarhættir, heldur einnig augljóst brot á tilvitnaðri starfsmannastefnu Flugmálastjórnar. Þá vekur félagið athygli yðar á reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað og skyldu atvinnurekanda til að bregðast við því, en einelti er skilgreint í reglugerðinni sem: „Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að […].“ Ljóst er að með þessum refsiaðgerðum gegn flugumferðarstjórum sem vinna vaktir í flugstjórnarmiðstöðinni er þeim mismunað enda beinast þær einungis gegn einum afmörkuðum hópi starfsmanna. Félag íslenskra flugumferðarstjóra er kunnugt um það að þessar aðgerðir hafa valdið flugumferðarstjórum í flugstjórnarmiðstöðinni vanlíðan og þeir eru bæði særðir og móðgaðir.

 


Félag íslenskra flugumferðarstjóra fer þess vinsamlegast á leit að þér, hr. flugmálastjóri, stöðvið þessar refsiaðgerðir undirmanna yðar, sem félagið er fullvisst um að hafi verið gripið til án vitneskju yðar. Þá fer félagið fram á að þér upplýsið um viðbrögð yðar.

 

 

Virðingarfyllst,

 

 

 

 

 












__________________________________

__________________________________

Loftur Jóhannsson

Stefán B. Mikaelsson

formaður

ritari

 

 

Afrit: samgönguráðherra