Flugmálastjóri hefur ákveðið, að höfðu samráði við yfirmenn flugumferðarsviðs, „…að aðalvarðstjórar taki mið af aðstæðum í flugstjórn hverju sinni þegar fjallað er um beiðnir flugumferðarstjóra [til að „skreppa“ úr húsi eða að nýta sér leikfimiaðstöðu]“.

                    

Í minniblaði starfsmannastjóra, sem fylgdi bréfi flugmálastjóra til FÍF, kemur fram að ástæða refsiaðgerðanna sé sú að flugumferðarstjórar í flugstjórnarmiðstöðinni hafi „gefið til kynna að þeir muni ekki verða við beiðnum um að vinna yfirvinnu… .“  Fram kemur hjá starfsmannastjóranum að það hafi verið „hert á því við aðalvarðstjóra að þeir heimili starfsmönnum ekki að skjótast úr vinnu á vinnutíma nema brýna nauðsyn beri til.“ Að sama skapi hafi verið „brýnt fyrir aðalvarðstjórum að þeir heimili starfsmönnum ekki að fara í leikfimisalinn í vinntíma ef ætla má að þörf verði á að þeir fari í vinnustöðu.“

 

Starfsmannastjórinn leggur áherslu á að aðalvarðstjórar geti „að sjálfsögðu“ heimilað flugumferðarstjórum að fara í leikfimisalinn, „…ef það liggur alveg ljóst fyrir að ekki verður þörf fyrir þá í vinnustöðu á meðan.“ Starfsmannastjórinn segir að þetta sé háð mati hvers aðalvarðstjóra, „…enda beri þeir ábyrgð á að starfsemi flugstjórnarmiðstöðvarinnar raskist ekki vegna þessa.“ Að lokum telur starfsmannastjórinn að það geti vart talist „óeðlilegar kröfur til starfsmanna að þeir séu á vinnustað á meðan á vinnutíma stendur og sinni vinnu sinni.“

 

Formaður