Vegna fréttar á heimasíðu samgönguráðuneytisins 20.7.2006 og í Morgunblaðinu í dag, 21.7.2006, hefur FÍF sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.
 



Flugumferðarstjórar furða sig á yfirlýsingum Flugmálastjórnar um að þeir hafi hafnað tilboði um nýtt fyrirkomulag vakta í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.  Þeim hafi aldrei verið boðið upp á samninga um breytt vaktafyrirkomulag – þvert á móti hafi Flugmálastjórn lýst því yfir að slíkt sé ekki samningsatriði heldur geti hún einhliða ákveðið vaktafyrirkomulagið. Félagið hafi hins vegar ítrekað boðist til að semja um málið og það tilboð standi enn.

 

Í mars sl. ákvað Flugmálastjórn einhliða nýtt vaktafyrirkomulag gegn hörðum mótmælum félagsins. Félagið taldi að slíkar breytingar hlytu að vera samningsatriði og ekki viðunandi fyrir starfsfólk að una geðþóttaákvörðunum yfirmanna sinna í þeim efnum. Félagið skoraði á Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra að gefa fyrirmæli til Flugmálastjórnar um að hafa fullt samráð við starfsmenn um nýtt fyrirkomulag vakta.  

 

Grundvallarsjónarmið Félags íslenskra flugumferðarstjóra í þessu máli er það að stjórnendur verði og eigi að hafa samráð við starfsfólk sitt um tilhögun vakta utan hefðbundins dagvinnutíma. Þá geti félagið alls ekki sætt sig við nýtt vaktakerfi sem kveður á um aðeins fjögur helgarfrí á ári enda slíkt engan veginn í samræmi við þá fjölskyldustefnu sem Flugmálastjórn hefur samþykkt.

 

Félag íslenskra flugumferðarstjóra vill að lokum árétta að það er fyrir sitt leyti tilbúið að setjast niður strax í dag til að semja um nýtt og þá vonandi betra vaktafyrirkomulag en það vaktkerfi sem var við lýði fyrir 16. mars 2006.

 

Nánari upplýsingar:

Loftur Jóhannsson,

formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra,

sími 861 0050.