Sá fáheyrði atburður varð í dag að flugumferðarstjóri, sem var veikur heima, var af Flugmálastjórn skipað að mæta þegar í stað til vinnu eftir að trúnaðarlæknir fyrirtækisins hafði metið hann hæfan til að gegna störfum. Viðkomandi starfsmaður kvaðst efast um hæfni sína til að stunda flugumferðarstjórn enda hann slappur og m.a. tekið verkjastillandi lyf. Engu að síður var honum skipað að mæta á vaktina og gerði hann það.

 

Stjórn Félags íslenskra flugumferðarstjóra vekur athygli á því að hér er um fáheyrð vinnubröð að ræða og mótmælir þessu athæfi harðlega.  Í þessu felist aðdróttanir um að flugumferðarstjórar þykist vera veikir eða nenni ekki að sinna skyldum sínum. Staðreyndin sé sú að af 13 vakthafandi starfsmönnum hafi 2 verið veikir í dag og teljist það vart óeðlilegt hlutfall.

 

Félagið varar eindregið við afleiðingum þess að veikir starfsmenn séu neyddir til að sinna flugumferðarstjórn. Í því sambandi vill félagið benda á 37. grein laga nr. 60/1998 um loftferðir en þar segir meðal annars að enginn megi stjórna loftferðum eða veita öryggisþjónustu vegna loftferða sé hann vegna sjúkdóms eða þreytu eða annarra líkra orsaka, óhæfur til að rækja starfann á tryggilegan hátt.

 

Félag íslenskra flugumferðarstjóra harmar að Flugmálastjórn skuli grípa til óyndisúrræða af þessu tagi. Telur félagið þetta fáheyrt í samskiptum starfsmanna og vinnuveitenda og hefur miklar áhyggjur af orðspori íslenskrar flugumferðarstjórnar ef þessi vinnubröð eigi að líðast.