„Bréf Þorgeirs Pálssonar, flugmálastjóra, til Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) bendir eindregið til þess að hann verði að læra að umgangast sannleikann aftilhlýðilegri virðingu. Sú fullyrðing FÍF, að ég hafi verið neyddur til að mæta ávinnustað veikur, er rétt og sönn. Ég var með slæman höfuðverk og illa sofinn að morgni 31. júlí, tilkynnti um veikindi, tók sterk verkjalyf (Parkódín forte) og lagði mig. Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar mætti heim til mín eftir hádegið og kvað upp úr með að ég væri „klínískt heilbrigður“ og í kjölfarið hringdi yfirflugumferðarstjóri Flugmálastjórnar í mig og boðaði til vinnu. Eftir það samtal hringdi ég í fluglækni og fékk staðfest hjá honum að áhrif sterkra deyfilyfja gætu varað í allt að sex klukkustundir.


Eftir að ég hafði gengið úr skugga um að áhrif deyfilyfjanna væru horfin taldi ég mér ekki annað fært, í ljósi starfsöryggis míns, en mæta til starfa þrátt fyrir að vera áfram með höfuðverk og ekki í raunverulegu standi til að vinna. Um kvöldið fór ég á læknavakt í Kópavogi og fékk vottorð læknis um að ég væri óvinnufær. Það skal tekið fram að ég skrifaði samdægurs skýrslu um málið í samræmi við venjulegar starfs- og öryggisreglur. Upplýsingar um atburðarásina hafa því legið fyrir hjá Flugmálastjórn allan tímann og ef undirmenn flugmálastjóra hafa ekki komið þeim á framfæri við æðsta yfirmann sinn segir það út af fyrir sig allt sem segja þarf um stjórnsýsluna á þessum bæ.


Flugmálastjóri segir í bréfi sínu: „Staðreyndin er að tveir trúnaðarlæknar Flugmálastjórnar komust að þeirri niðurstöðu að ekkert væri því til fyrirstöðu að þessi starfsmaður kæmi til starfa á umræddum degi.“ Þetta er einfaldlega alrangt. Eini trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar skoðaði mig vissulega og taldi mig „klínískt heilbrigðan” þrátt fyrir þrálátan höfuðverk og vanlíðan. Í fluglækninn hringdi ég hins vegar sjálfur vegna lyfjanotkunarinnar eins og fyrr var nefnt og fráleitt er að sá hafi haft nokkrar forsendur til að kveða upp úr um heilsufarið á grundvelli þess sem okkur fór á milli.


Staðreynd þessa máls er sú að ég var kallaður til vinnu án þess að vera hæfur til slíks af heilsufarsástæðum. Ég vildi ekki stefna starfsréttindum mínum og starfsöryggi í voða með því að hunsa kvaðningu til vinnu. Þess vegna lít ég svo á að ég hafi verið þvingaður til að starfa. Yfirmenn Flugmálastjórnar telja þetta hins vegar vera eðlilegt ástand á vinnustaðnum. Það segir sína sögu um viðhorf þeirra til starfsfólks og til mannlegra samskipta.“


Sent fjölmiðlum að ósk Jóns Guðmundssonar 17. ágúst 2006,


Loftur Jóhannsson,
formaður Félags íslenkra flugumferðarstjóra
sími 861 0050.