Stjórn Flugstoða greinilega ekki á þeim buxunum að semja

Stjórn Félags íslenskra flugumferðarstjóra hefur lagt fyrir Flugstoðir ohf. tillögu að samkomulagi vegna flutnings hluta af starfsemi Flugmálastjórnar til Flugstoða um áramótin. Stjórnarformaður Flugstoða óskaði í dag eftir að fá tóm til að kanna tillöguna betur, sem var sjálfsagt mál af hálfu flugumferðarstjóra. Stjórn Félags íslenskra flugumferðarstjóra kom því meira en lítið á óvart að Flugstoðir skyldu í kvöld gefa út yfirlýsingu þar sem ábyrgð er varpað á flugumferðarstjóra vegna tafa sem kunna að skapast í flugumferð eftir áramótin vegna þess að Flugstoðir fást ekki til að setjast að samningaborði með flugumferðarstjórum. Þessi viðbrögð benda því miður til þess að stjórn Flugstoða sé yfirleitt ekki á þeim buxunum að semja. Hvernig er annars unnt að skilja öðru vísi þau vinnubrögð að svara ákveðinni sáttaumleitan af hálfu flugumferðarstjóra með hvössum skeytum í þeirra garð á opinberum vettvangi?

 

Flugumferðarstjórar halda fast við að semja beri við Flugstoðir um stöðu sína, kjarasamninga og lífeyrismál. Einhliða yfirlýsingar af hálfu Flugstoða duga ekki. Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur lagt fyrir stjórn Flugstoða hugmynd um hvernig bæta megi skerðingu lífeyrisréttinda félagsmanna FÍF. Þar er einnig farið fram á að fá viðurkennt vaktaálag, sem þegar er til staðar í kjarasamningi, gegn því að flugumferðarstjórar skuldbindi sig til að halda uppi lágmarksþjónustu í hugsanlegu verkfalli flugumferðarstjóra, komi til slíks vegna kjarabaráttu í framtíðinni.

 

Klifað er á því í opinberri umræðu, nú síðast í yfirlýsingu Flugstoða í kvöld, að flugumferðarstjórar krefjist launahækkunar sem mælist í tugum prósenta. Þetta á sér ekki stoð í veruleikanum. Því væri fróðlegt, bæði fyrir flugumferðarstjóra sjálfa og almenning allan, að fá nú að sjá og heyra hvaða forsendur þeir gefa sér sem slíku halda fram. Víst er að hvorki yfirvöld samgöngumála landsins né Flugstoðir hafa upplýst flugumferðarstjóra um forsendur reikningskúnsta sinna, enda standast þær ekki skoðun.

 

Nánari upplýsingar:

Loftur Jóhannsson,

Sími 861 0050.