Samtök flugumferðarstjóra á Norðurlöndum héldu árlegan fund sinn í Reykjavík dagana 14. – 16. september 2007.

 

Á fundinum komu fram áhyggjur flugumferðarstjóra vegna þess að  rekstraraðilar flugumferðarþjónustu á Norðurlöndum mæta skorti á flugumferðarstjórum í auknum mæli með yfirvinnu. Mikil yfirvinna með tilheyrandi álagi og þreytu stefna í hættu flugöryggi og heilsu flugumferðarstjóra. Fundarmenn benda á að í stefnu Alþjóðasamtaka flugumferðarstjóra (IFATCA) er kveðið á um að alla jafna skuli yfirvinnu haldið í lágmarki. Þegar gripið sé til yfirvinnu beri ávallt að hafa í huga neikvæð áhrif sem óhófleg vinna geti haft á frammistöðu starfsmanna. Þá þurfi rétt yfirvöld að setja reglur um vinnutíma flugumferðarstjóra.

 

Með hliðsjón af framansögðu hvetja Samtök flugumferðarstjóra á Norðurlöndum rekstraraðila í flugumferðarþjónustu til að skipuleggja starfsemi sína og mannauðsstjórnun í samræmi við aukna flugumferð og með það að markmiði að útrýma þörf fyrir yfirvinnu í stjórnun flugumferðar.