Alþjóðleg samvinna um öruggar og skilvirkar flugsamgöngur

Laugardaginn 20. október halda Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra IFATCA upp á alþjóðadag flugumferðarstjóra en samtökin voru stofnuð á þessum degi fyrir fjörutíu og sex árum. Félag íslenskra flugumferðarstjóra var meðal félaga flugumferðarstjóra frá tólf löndum sem stóðu að stofnun IFATCA árið 1961. Með því að halda þennan dag hátíðlegan vilja IFATCA minna á þann veigamikla þátt sem flugumferðarstjórar hafa í gegnum tíðina átt í þróun flugsamgangna en í samtökunum eru yfir 50 þúsund flugumferðarstjórar um allan heim. Einkunnarorð Alþjóðadags flugumferðarstjóra eru að þessu sinni: „Alþjóðleg samvinna um öruggar og skilvirkar flugsamgöngur.“

Í yfirlýsingu sem samtökin hafa sent frá sér í tilefni dagsins er bent á að á tímum sívaxandi flugumferðar eru seinkanir á flugi, sem rekja má til hertra öryggisráðstafana við innritun á flugvöllum, stöðugt áhyggjuefni almennra flugfarþega. Samtökin benda á að við slíkar aðstæður sé gott að hafa í huga að á bakvið tjöldin vinnur heil stétt  manna að því að tryggja að flug geti gengið sem greiðlegast fyrir sig. Minnt er á að flugumferðarstjórar þjóna flugumferðinni allan sólarhringinn allan ársins hring með það að markmiði að lágmarka tafir og að tryggja örugga og fumlausa flugumferð. Samtökin benda á að víðtæk samvinna allra sem koma að flugumferðarþjónustu sé vænlegasta leiðin til að tryggja skilvirka stjórn flugumferðar.

 

Með því að halda 20. október hátíðlegan vilja samtökin stuðla að því að flugumferðarstjórar um allan heim geti verið stoltir af þeim góða árangri sem náðst hefur á liðnum árum um leið og vakin er athygli á vaxandi mikilvægi starfa flugumferðarstjóra.

 

Íslenskir flugumferðastjórar

Fyrstu Íslendingarnir hófu nám í flugumferðarstjórn hjá breska flughernum í október 1945 en sumarið 1946 tóku Íslendingar við stjórn flugumferðar af Bretum. Sama ár tók Flugmálastjórn við flugumferðar-þjónustu á íslenska flugstjórnarsvæðinu en árið 1948 var gerður samningur um alþjóðaflugþjónustuna sem síðan hefur verið megin þáttur íslenskrar flugumferðarþjónustu. Frá því að fyrstu íslensku flugumferðarstjórarnir útskrifuðust hefur alls 221 Íslendingur öðlast réttindi og unnið sem flugumferðarstjóri hér á landi. Félag íslenskra flugumferðarstjóra var stofnað í október 1955 og voru félagar í upphafi 17 en í dag eru 116 flugumferðarstjórar í félaginu.

Á síðustu árum hefur umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið aukist jafnt og þétt. Árið 2003 fóru tæplega 79 þúsund vélar um íslenska flugstjórnarsvæðið en þremur árum síðar, í lok árs 2006, hafði þeim fjölgað í tæplega 98 þúsund vélar. Það sem af er þessu ári benda tölur um flugumferð til þess að enn fleiri vélar muni leggja leið sína um íslenska flugstjórnarsvæðið og að fjöldi véla verði yfir 100.000 árið 2007.