Á Evrópufundi Alþjóðasamtaka flugumferðarstjóra (IFATCA) í Lissabon, 25.-26. október 2008 kom fram að  flugumferð hafi aukist stöðugt og að mikill skortur sé á mannafla til að stýra nýjum, fullkomnum flugstjórnarkerfum. Mannekla í flugumferðarstjórn um allan heim stafar meðal annars af því að stjórnvöld í mörgum ríkjum heimsins hægðu meðvitað á nýliðun í starfsgreininni eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Flugumferðarstjórar eru í staðinn látnir vinna mikla yfirvinnu, sem eykur bæði álag og þreytu. Í sumum Evrópulöndum hefur flugumferð meira en tvöfaldast á síðustu fimm árum en flugumferðarstjórum hefur ekkert fjölgað á sama tíma.




Gera má ráð fyrir að flugumferð dragist saman árið 2009 í ljósi efnahagslegrar kreppu sem ríður yfir heimsbyggðina. Slíkt getur haft neikvæð áhrif á flugfélög og aðila sem veita þjónustu á sviði flugumferðarstjórnar. Alþjóðasamtök flugumferðastjóra og flugumferðarstjórar í Evrópu, sem gera sér grein fyrir því að nú þrengir að í flugrekstri, sjá ástæðu til að vara ráðamenn við að falla enn og aftur í þá gryfju að bregðast við samdrætti með því að hefta nýliðun í  flugumferðarstjórn.



Loftur Jóhannsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, hefur áhyggjur af þróun mála á hérlendis: „Flugstoðir hafa ákveðið að hætta (a.m.k. tímabundið) grunnþjálfun flugumferðarstjóra en treysta þess í stað á óskylda aðila, Flugskóla Íslands og Keili, sem aldrei hafa komið nálægt slíkum málum áður og hafa hvorki tæki né mannafla til þess. Við þurfum vel menntaða nýliða svo hægt sé að halda uppi vinnuskilyrðum sem gera okkur kleift að vinna starf okkar af fyllsta öryggi.“  

Á fundi IFATCA var einnig lögð áhersla á málefni varðandi:


·        Streitu og áfallastjórnun vegna alvarlegra flugatvika (critical incident stress management).


·        Réttlætissjónarmið (just culture) við rannsókn á flugumferðaratvikum.


·        Sameiginlegt evrópskt loftrými.