Ágætu félagsmenn.

FÍF hefur verið aðili að ITF (International Transport Federation) undanfarin ár. Þetta er stéttarfélag aðila í flutningsgeiranum. Það eru starfræktar ýmsar deildir þar sem sjá um ólíkar hliðar flutningsbransans, þar á meðal málefni flugumferðarstjóra. Stjórn FÍF telur að við höfum ekki fengið það mikið út úr aðild að ITF til að réttlæta það að vera þar áfram. Hins vegar teljum við nauðsynlegt að vera í alþjóðlegu stéttarfélagi flugumferðarstjóra. Innan Evrópu eru starfrækt tvö stéttarfélög flugumferðarstjóra, ETF og ATC-EUC. Aðild að ITF kostar FÍF 1200 pund á ári.

ETF er í raun smærri útgáfa af ITF sem sérhæfir sig í málefnum Evrópu. Þeir hafa verið að starfa að ýmsum málum og eru meðal annars í samskiptum við ESB. Það eru ekki einungis flugumferðarstjórar innan ETF heldur gefst öllum kostur á að sækja um aðild sem starfa að flutningsmálum innan Evrópu. Við getum verið aðilar að ETF án þess að vera aðilar að ITF. Það má lesa meira um ETF á heimasíðu þeirra: http://www.itfglobal.org/etf/index.cfm. Aðild að ETF kostar FÍF 500 evrur á ári.

ATC-EUC er stéttarfélag eingöngu skipað flugumferðarstjórum. Það starfar einungis innan Evrópu. ATC-EUC eru einnig í samskiptum við ESB en ólíkt ETF einbeitir ATC-EUC sér að málefnum flugumferðarstjóra í þeim samskiptum sem og öllum málum. Norðmenn eru aðilar að ATC-EUC og Danir eru að hugsa um aðild. Það má lesa meira um ATC-EUC á heimasíðu þeirra: http://www.atceuc.org/. Aðild að ATC-EUC kostar FÍF 1000 evrur á ári.

ATC-EUC og ETF hafa verið að berjast um það hverjir það verði sem verði málsvarar flugumferðarstjóra í Evrópu. ATC-EUC eru að vinna þann slag. Í dag eru 23 stéttarfélög í Evrópu aðilar að ATC-EUC. Hins vegar reyndist erfitt að finna upplýsingar hversu mörg stéttarfélög flugumferðarstjóra eru aðilar að ETF.

Fulltrúar stjórnar FÍF hittum Volker Dick, forseta ATC-EUC, á síðastliðnu IFATCA þingi. Þar fengum við kynningu á starfssemi samtakanna. Í stuttu máli þá leist okkur vel á hvað þeir eru að gera. Vissulega fór hann ekki leynt með vilja sinn í það að FÍF gerðust aðilar að samtökunum, taldi það styrkja þau heilmikið. Ákveðinn hluti af starfsemi ATC-EUC fer í dag að tryggja réttindi flugumferðarstjóra í austanverðri Evrópu þar sem réttindi þeirra eru ekki alltaf eins góð eins og hjá okkur. En við teljum þrátt fyrir það að hagsmunum okkar verði vel borgið þar og við munum fá allan mögulegan stuðning sem við þörfnumst þegar við þörfnumst hans frá ATC-EUC og það mun skjótar heldur en frá ITF eða ETF. Einnig kostar það minna að vera aðilar að ATC-EUC heldur en að ITF og ETF.

Marc Baumgardner, forseti IFATCA, mælti með því að FÍF gengi í ATC-EUC frekar en ETF við fulltrúa stjórnarinnar.

Því leggur stjórn FÍF það til að félagið gangi úr ITF og í ATC-EUC. Munum við halda félagsfund fljótlega þar sem gengið verður til kosninga um þessa tillögu.

Kveðja

Stjórn FÍF