Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) lýsir áhyggjum af afleiðingum atgervisflótta sem brostinn er á í atvinnugreininni. Á skömmum tíma hafa 9 af alls 64 flugumferðarstjórum, sem starfa dagsdaglega við flugumferðarstjórn hérlendis, sagt upp störfum og haldið utan til starfa.
Enn fleiri úr þessum hópi kanna málið eða hafa nú þegar sótt um starf við flugumferðarstjórn erlendis. Fastlega má því gera ráð fyrir að enn fleiri flugumferðarstjórar flytjist af landi brott á næstu mánuðum.

Það segir sína sögu um ástæður atgervisflóttans að hæstlaunuðustu flugumferðarstjórarnir á Íslandi ná ekki byrjunarlaunum starfssystkina sinna annars staðar á Norðurlöndum. Þá eru dæmi um að íslenskir flugumferðarstjórar fjórfaldi útborguð laun sín með því að ráða sig í vinnu erlendis.

Samhæfð menntun flugumferðarstjóra um allan heim auðveldar þeim að fá vinnu utan heimalandsins, jafnvel í öðrum heimshlutum. Íslensku flugumferðarstjórarnir, sem eru þegar farnir eða íhuga að fara, eru að jafnaði með tólf ára starfsaldur. Þeir eru því afar reyndir fagmenn og mjög eftirsóttir, enda skortir flugumferðarstjóra víða um heim.