Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra (IFATCA) hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem viðbrögð spænskra stjórnvalda vegna aðgerða spænskra flugumferðarstjóra eru fordæmd harkalega. Ganga samtökin svo langt að lýsa því yfir að öryggi loftfara í spænsku loftrými sé alvarlega ógnað. Samkvæmt tilkynningunni er ástæða verkfalls flugumferðarstjóra deilur um vinnutíma. Spænsk stjórnvöld höfðu, fyr á þessu ári, sett reglur um hámarksvinnutíma flugumferðarstjóra. Eins og spáð hafði verið reyndust þessar reglur of stífar og erfiðlega gekk að manna allar vinnustöður. Því brá AENA (ríkisrekið fyrirtæki sem sér um flugvelli landsins) á það ráð að breyta reglunum. Þrátt fyrir fréttir þess efnis var ekki deilt um laun.

IFATCA telur að með því að setja flugumferðarstjóra undir stjórn hersins í 15 daga frá 4. desember sé verið að beita óþarflega mikilli hörku í máli sem hefði verið hægt að leysa við samningaborðið. Með því að beita hernum séu stjórnvöld og AENA að beina athyglinni frá misheppnuðum ákvörðunum og afleiðingum þeirra. Verið sé að nota flugumferðarstjóra sem blóraböggla til að bjarga illa reknu fyrirtæki.

IFATCA telur að í umhverfi þar sem öryggi skiptir höfuðmáli geti herstjórn aldrei tryggt örugga þjónustu. Sérstaklega ekki þegar flugumferðarstjóra þurfi að þola kúgun stjórnvalda. Samtökin lýsa yfir stuðningi við spænska flugumferðarstjóra og hvetja stjórnvöld til að hefja opnar viðræður við þá. Jafnframt hvetja samtökin alþjóðastofnanir eins og ICAO, framkvæmdastjórn ESB, EUROCONTROL og CANSO til þess að tryggja að ástandið á Spáni verði leyst og valdi ekki enn frekari hættu.