Flugturn_kikir_RGB_TA_exp0214_HQFrétt á mbl.is í gær undir fyrirsögninni „Flugturninn nánast mannlaus“ lýsir grafalvarlegri stöðu sem kom upp í flugturninum í Keflavík í gær þegar aðeins einn flugumferðarstjóri í stað þriggja var á vakt í átta klukkustundir. Í fréttinni er síðan haft eftir Isavia að þetta ástand hafi „aðeins áhrif á eina og eina vél og helst millilanda- og áætlunarflug því í eðlilegu horfi“. Öryggisnefnd Félags íslenskra flugumferðarstjóra telur þetta viðhorf Isavia jafnvel alvarlegra en fréttina sjálfa. Þegar flugöryggi er annars vegar getur svona ástand í flugturni aldrei samrýmst því að flugsamgöngur séu í eðlilegu horfi.

Í gær var starfsemi Keflavíkurturns þrívegis takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug, hálftíma í senn. Að öðrum kosti hefði ekki verið unnt að uppfylla kvaðir um lágmarkshvíldartíma þess eina flugumferðarstjóra sem var á vakt. Að mati öryggisnefndar FÍF er mikið ábyrgðarleysi fólgið í því að draga úr alvarleika þeirrar fordæmalausu stöðu sem skapaðist þennan dag. Ljóst er að ekkert svigrúm var fyrir hendi til að bregðast við tilfallandi álagi og óvæntum aðstæðum. Öryggisnefnd FÍF leggur áherslu á að grundvallarþáttur í starfsemi Isavia er að tryggja flugöryggi í hvívetna. Ómögulegt er að sinna því hlutverki án þess að lágmarksmannskapur sé til staðar. Er Isavia hvatt til að gera allt sem í valdi þess stendur til að hindra að sambærilegar aðstæður skapist að nýju.

Fyrir liggur að Keflavíkurflugvöllur er nú sjötti fjölfarnasti flugvöllur Norðurlanda. Álag á flugumferðarstjóra hefur aukist gífurlega á undanförnum árum með síaukinni flugumferð um íslenska flugvelli og íslenska flugstjórnarsvæðið. Á sama tíma stendur fjöldi flugumferðarstjóra sem starfa á Íslandi nánast í stað og yfirvinna þeirra til þess að halda flugumferðinni gangandi er löngu orðin óhófleg. Viðbrögð Isavia hafa sýnt sig vera ófullnægjandi til að bregðast við ástandinu og engum getur lengur dulist að flugöryggi er ógnað. Þess vegna er tafarlausra úrbóta þörf.

F.h. Öryggisnefndar Íslenskra Flugumferðarstjóra
Skúli Björn Thorarensen – Formaður Öryggisnefndar